Nemendur glaðir í bragði í útskrift í dag.
Í dag var síðasti skóladagur skólaársins. Fyrir hádegi var hjóladagur þar sem nemendur fóru í gegnum þrautabraut og eldri nemendur fóru í lengri hjólaferð. Einnig voru leikir á fótboltavellinum. Í hádeginu sáu nemendur 10. bekkjar um að grilla hamborgara sem voru einstaklega ljúffengir.
Klukkan 12.30 voru skólaslit hjá 1. - 9. bekk þar sem skólastjóri flutti ávarp og fór yfir helstu viðburði vetrarins. Emilía Björk, fulltrúi nemendaráðs, flutti því næst ávarp og þakkaði nemendum m.a. fyrir þátttöku í viðburðum á vegum þess. Því næst stjórnaði Dagný Elísdóttir sameiginlegri söngstund þar sem sungin voru tvö lög, Textinn við annað lagið er frumsaminn við lagið Halleljúa og fjallar hann um kjörorðin okkar, ánægju, ábyrgð og árangur. Við höfum í samráði við Dagnýju gert lagið og textann að skólasöng okkar. Næst frumsýndu nemendur 10. bekkjar kveðjumyndband sem þau hafa unnið að síðustu daga. Svo var komið að því að afhenda vitnisburðarskírteinin og fengu allir nemendur að koma upp á svið og taka í hönd umsjónarkennara og stjórnenda. Að lokum dönsuðu allir saman við eitt lag úr Just dance.
Klukkan 17.00 var útskrift nemenda í 10. bekk. Þá flutti skólastjóri ávarp og Alexandra Líf Þorbjarnardóttir flutti þakkaræðu fyrir hönd nemenda í 10. bekk. Að lokum afhentu Eydís Ósk og Sigurveig Sædís, umsjónarkennarar, nemendum rósir og vitnisburðarskírteinin. Að útskrift lokinni buðu foreldrar upp á veitingar.
Við óskum nemendum í 10. bekk velfarnaðar í framtíðinni og þökkum kærlega fyrir samveruna síðustu tíu ár.
Myndir frá hjóladeginum, skólaslitunum í 1. - 9. bekk og útskrift nemenda 10. bekkjar má sjá hér.
Nú eru nemendur komnir í sumarfrí. Við þökkum þeim og foreldrum þeirra fyrir ánægjulegt samstarf á skólaárinu.
Skóladagatal næsta skólaárs er komið á heimasíðuna og má nálgast hér.