Skólareglur Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar
Skólareglur Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar (GF) eru unnar í samræmi við lög um grunnskóla (nr. 91/2008, 30. grein) og reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Þar er kveðið á um að grunnskólar skuli setja skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum þar sem úrræði og viðbrögð taki mið af persónuþroska og hæfni nemenda og stuðli sem best að jákvæðri hegðun.
Markmið skólareglna GF eru að allir nemendur geti þroskað hæfileika sína og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Viðfangsefni allra í skólasamfélaginu er að byggja upp góðan starfsanda og jákvæðan skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæðni einkenna öll samskipti. Ennfremur að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti. Starfsfólk skóla og foreldrar þurfa að leitast við að vera nemendum góðar fyrirmyndir.
Í reglugerð um ábyrgð og skyldur segir m.a. „Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin”. Skólareglur gilda í skólanum, íþróttahúsum, sundstöðum, félagsmiðstöðvum og í öllum ferðum á vegum skólans en auk þess þurfa nemendur að fara eftir sérreglum sem gilda á þessum stöðum.
Almennar reglur GF
Við eigum að ...
- sýna virðingu, tillitsemi og kurteisi
- fara eftir fyrirmælum alls starfsfólks í skólanum
- vera stundvís og hafa nauðsynleg námsgögn eða búnað meðferðis
- skapa og virða vinnufrið
- bera virðingu fyrir eigum skólans, okkar og annarra
Einnig skal tekið fram að ...
- Forföll skulu tilkynnt til ritara eða gegnum Mentor fyrir kl 08:10. Verði misbrestur á að tilkynna forföll er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
- Ef nemandi veldur verulegri truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr tíma. Komi til slíkrar brottvísunar skal nemandi fara tafarlaust til skrifstofu deildarstjóra/skólastjóra. Umsjónarkennara skal gerð grein fyrir agabroti nemandans og forráðamenn látnir vita
Öryggisreglur GF
Við eigum aldrei að ...
- koma með eða beita hlutum sem geta skaðað aðra eins og barefli, hnífa eða eldfæri
- ögra, beita andlegu-, líkamlegu eða stafrænu ofbeldi
- neyta ávanabindandi efna (nikótín púða, rafrettur, sígarettur, áfengis eða fíkniefna)
- hreyfa við öryggisbúnaði skólamiðstöðvarinnar (bjöllur, gluggar, neyðarútgangar o.s.frv.)
Umgengnisreglur GF:
- Við höfum í heiðri heilbrigðar og hollar lífsvenjur og komum með hollt nesti í skólann. Við neytum hvorki sælgætis eða gosdrykkja í skólanum nema við sérstök tilefni.
- Við förum úr útiskóm, setjum í hillur og hengjum upp yfirhafnir/útiföt.
- Við nýtum frímínútur til útiveru og klæðum okkur eftir veðri. Útivera í frímínútum er frjálst val fyrir nemendur í 8. – 10. bekk.
- Við förum í snjókast á grasbalanum við sandkassann. Við köstum aldrei snjóboltum í átt að skólanum eða í þá sem eru ekki þátttakendur í leiknum/snjókastinu.
- Við yfirgefum ekki skólalóðina á skólatíma án leyfis.
- Við klifrum ekki á handriðum í skólanum
- Við tökum ekki peninga eða önnur verðmæti með í skólann að óþörfu. Skólinn tekur ekki ábyrgð á verðmætum sem nemendur koma með.
- Nemendur í grunnskólum Fjarðabyggðar skulu ekki nota eigin snjalltæki, snjallsíma eða snjallúr á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Sjá nánar Snjalltækjareglur Fjarðabyggðar
- Við notum ekki reiðhjól, hjólabretti, hlaupahjól, rafskútur, línu- eða hjólaskauta á skólalóðinni á skólatíma. Sjá nánar Reiðhjólareglur GF
- Við erum fulltrúar okkar byggðarlags í nemendaferðum og fylgjum skólareglum í hvívetna.
Viðurlög og/eða úrvinnsluaðferðir við brotum á reglum skólans má sjá Hér